Aldrei mælst meiri úrkoma í nóvember

Ef önnur eins úrkoma og var víða á Íslandi um helgina hefði átt sér stað í stærri og þéttbýlli samfélögum hefðu orðið meiriháttar vandræði en hér var rigningin til lítils ama, þökk sé góðu kerfi, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við Margréti Marteinsdóttur í þættunum 21 í kvöld.

Aldrei hefur mælst jafn mikil úrkoma í nóvember í Reykjavík eins og um nýliðna helgi. Gríðarleg rigning var víðar en á höfuðborgarsvæðinu til dæmis á Reykjanesi, Suðurlandi og sunnanverðum Vestfjörðum.  

 Það var óvenjulegt veður víða um land um helgina. Hiti fór mest í 18 gráður á Skjaldþingsstöðum á Vopnafirði og hiti var í kringum 17 gráður á Ólafsfirði og Siglufirði. Þá var úrhellisrigning á höfuðborgarsvæðinu, mikil úrkoma á Reykjanesi, Suðurlandinu öllu og austur í Austur Skaftafellssýslu, á norðanverðu Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur segir að um sé að ræða hlýtt loft sem sé langt að komið og samspil veðurkerfanna; mikillar hæðar fyrir austan Ísland og lægðar suðvestur af landinu sem beindi til landsins mjög mildu lofti alla leið vestan frá Ameríku. Loftagnir sem voru yfir Ströndum voru fyrir viku við landamæri Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum segir Einar. Ekki er þó talið að þetta óvenjulega tíðarfar tengist loftstlagsbreytingunum heldur sé um að ræða tilviljun.

Einar segir að hin mikla úrkoma um helgina hafi sýnt hve gott kerfið á Íslandi sé til að taka á móti slíku vatnsveðri. Að menn hafi í gegnum tíðina beitt miklu hyggju- og verkviti við að leggja vegi, ræsi og brýr. Það hafi sýnt sig um helgina, lítið sem ekkert hafi skemmst og það hafi runnið smávægilega úr á örfáum stöðum og allar meginleiðir, allar jökulár og stór vatnsföll hafi komist leiðar sinnar.

En víða annarsstaðar á jörðinni má um þessar mundir finna óvenjulegt veðurfar sem tengist loftslagsbreytingum. Hamfarirnar í norðanverðri Kaliforníu vegna skógarelda þar sem 70 manneskjur hafa látist og fleiri en 1000 er saknað. Talið er að um 175.000 íbúar hafi þurft að flýja heimili sín. Einar segir að mjög líklega megi rekja aukna tíðni skógarelda á vesturströnd Bandaríkjanna til loftslagsbreytinga. Sömu sögu sé að segja af ís á norðuhjaranum sem hefur rýrnað mikið og hin mikla hlýnun á Svalbarða sé hægt að rekja beint til loftslagbreytinga af mannavöldum.

Annarsstaðar hefur úrkoma dreifst með öðru móti en áður og við það hafa eyðimerkur stækkað og sjá megi miklar breytingar á veðri m.a. fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem talið er  að minni úrkoma hafi jafnvel haft áhrif á stríðsátök. Þá er maroft búið að sýna fram á svæði í Ástralíu sem eru mun þurrari en fyrir 20 árum, segir Einar og að sama sé uppi á teningnum víða í Suður Afríku og Suður Ameríku.