Aldrei fleiri hlynntir borgarlínunni

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu hafa ekki fleiri Íslendingar verið hlynntir Borgarlínunni en nú frá því að mælingar hófust í byrjun árs 2018. Rúmlega 54 prósent eru hlynnt Borgarlínunni en um 22 prósent eru andvíg.
 
 \"\"
                                                          Mynd: Maskína
 
Í könnuninni kemur fram að Íslendingar á aldrinum 30 til 39 ára séu hlynntastir Borgarlínunni, eða 69,6 prósent. Þeir sem eru 60 ára og eldri eru síður hlynntir, eða um 45 prósent.
 
Höfuðborgarbúar eru almennt hlynntir Borgarlínunni. Reykvíkingar eru þar hlynntastir, 64,1 prósent, og fylgja nágrannasveitarfélög Reykjavíkur á eftir með 54,5 prósent. Austfirðingar setja sig mest upp á móti Borgarlínunni, eða 37,9 prósent og eru þeir einu sem eru andvígari Borgarlínunni nú en fyrir ári síðan. Flestir íbúar annars staðar af landinu eru töluvert hlynntari Borgarlínunni núna en árið 2018.
 
Þá kemur fram að konur eru hlynntari Borgarlínunni. 57,6 prósent kvenna eru hlynnt Borgarlínunni en 51,2 prósent karla. Töluvert fleiri karlar en konur eru andvígir Borgarlínunni, en tæplega 28 prósent þeirra eru andvígir samanborið við tæplega 16 prósent kvenna.
 
Háskólamenntaðir eru hlynntastir Borgarlínunni. Slétt 63 prósent þeirra eru hlynnt henni og tæplega 17% andvíg. Þeir sem lokið hafa grunnskólaprófi eru setja sig mest upp á móti Borgarlínunni, eða 28,4 prósent. Þeir sem hafa lokið framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun eru hlynntari Borgarlínunni en þeir sem eru með grunnskólapróf. Um 48-49 prósent þeirra eru hlynnt Borgarlínunni og á bilinu 24-25 prósent eru andvíg. Töluvert fleiri eru hlynntir Borgarlínunni nú en fyrir ári síðan á meðal þeirra sem lokið hafa framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun.
 
Þeir sem myndu kjósa Samfylkinguna ef kosið yrði til Alþingis í dag eru hlynntastir Borgarlínunni (83,9 prósent), en þeir sem myndu kjósa Miðflokkinn andvígastir (73,9 prósent).
 
Skýrslu vegna könnunarinnar má nálgast á PDF formi hér.

Borgarlínan

Á Borgarlínan.is segir meðal annars um verkefnið: „Borgarlína er nýtt og afkastamikið almenningssamgöngukerfi sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu undirbúa nú í sameiningu. Borgarlína mun aka á sérakreinum að mestu aðskilin frá almennri umferð og tengja saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.“