Álag eykst á heilsugæslustöðvum vegna E. coli faraldurs

Álag eykst á heilsugæslustöðvum vegna E. coli faraldurs

Álag hefur aukist á heilsugæslustöðvum vegna E. coli faraldursins sem nú geisar. Þetta er vegna fjölda fyrirspurna og fjölgunar saursýna sem komið er með á heilugæslustöðvarnar. Morgunblaðið greinir frá. Eins og greint hefur verið frá hafa alls 17 börn sýkst af E. coli bakteríunni undanfarnar vikur og bendir flest til þess að orsökina  fyrir sýkingunum sé að finna í ís sem var framleiddur og seldur að ferðaþjónustubænum Efstadal II í Bláskógabyggð.

Að minnsta kosti 15 af börnunum 17 fengu sér í ís í Efstadal og eitt þeirra, fimm mánaða drengur sem fékk bráðanýrnabilun, smitaðist af öllum líkindum systkini sínu sem fékk sér ís. Engar sambærilegar bakteríur hafa verið greindar annars staðar á landinu og því telur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir allar líkur á að öll smitin megi rekja til ferðaþjónustubæjarins að Efstadal II.

Áhyggjur vegna erlendra ferðamanna

Þórólfur segir í samtali við Morgunblaðið að hann sé áhyggjufullur vegna erlendra ferðamanna sem hafi heimsótt Efstadal II undanfarin misseri. Í gær var greint frá því að alvarlegu grunur liggi uppi um að bandarískt barn hafi sýkst af E. coli bakteríunni eftir að hafa heimsótt bæinn, en þó á eftir að staðfesta þann grun endanlega.

Hann segir að send hafi verið tilkynning á ensku til Samtaka ferðaþjónustunnar og Safe Travel og þau beðin um að dreifa þeim áfram til þeirra ferðamanna sem hafa verið hér á landi á þeirra vegum. Einnig hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, og Sóttvarnastofnun Evrópu verið upplýst um stöðu mála. „Við erum búin að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná sem flestum sem höfðu viðkomu í Efstadal II. En ég er hræddur um að það sé óvinnandi vegur að ná í alla sem hlut eiga að máli í þessum faraldri,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir enga einhlíta skýringu á því hvernig faraldur sé skilgreindur en að venjulega komi upp eitt til fjögur tilfelli hér og þar sem ekki sé hægt að tengja. Í tilfellinu sem gangi yfir núna er eins og áður segir hægt að tengja saman mörg tilfelli á litlum stað og þá sé um faraldur að ræða, og það fyrir löngu.

Nýjast