Ágústa: „þetta er bara alvöru mannaskítsfýla“ - „þú hengir ekkert upp þvottinn eða ert að dúlla þér í garðinum“

„Það er stillt og gott úti núna, en það er ekki lykt frá henni. En ég heyri í henni þar sem ég stend inn í eldhúsi, bublið í henni, hérna inn um gluggann hjá mér. Hún minnir á sig líka á þann hátt. En það er svo sem allt í lagi miðað við hitt, það er lyktin.“ 

Þetta segir Ágústa Júníusdóttir í samtali við RÚV, en hún býr rétt við skolphreinsistöð á Egilsstöðum. Þar brjóta örverur niður úrgang úr klósettum íbúa bæjarins. Í stillum getur myndast mjög mikil ólykt í kringum stöðina. Íbúar hafa hrokkið upp um miðja nótt með lyktina í svefnherbergjum sínum. Ágústa segir að ekki sé hægt að hengja upp þvott né slaka á í garðinum vegna ólyktar frá stöðinni.

„Þetta er bara alvöru mannaskítsfýla. Á fallegum dögum þegar maður vill vera hérna fyrir utan þá hefur enginn beint lyst á því, við förum þá bara í burtu eitthvert. Þetta er stundum dag eftir dag eftir dag. Annað slagið í hverjum mánuði, þetta er misjafnlega mikið. Þú hengir ekkert upp þvottinn eða ert að dúlla þér í garðinum því þetta er ekki eitthvað sem venst. Við viljum alveg endilega losna við hana.“ 

Íbúar í nánd við skolphreinsistöðina segja að þau hafi aldrei fengið grenndarkynningu, eða þeir spurðir álits, þegar stöðin var byggð árið 2004 og segja að því hafi ekki verið rétt að staðið við byggingu stöðvarinnar. Sveitarfélagið segist vera að skoða hvort það hafi farið fram rétt hafi verið staðið að undirbúningi framkvæmda á sínum tíma.