Ágúst: „Það er makalaus firring fólgin í því að telja að upplýsingarnar í þessari frétt eigi ekki erindi við almenning“

Ágúst: „Það er makalaus firring fólgin í því að telja að upplýsingarnar í þessari frétt eigi ekki erindi við almenning“

„Undanfarna mánuði hafa fjölmargar ábendingar borist DV um að dæmdur morðingi sem ekki hefur afplánað dóm sinn sé mikið á ferli í Hafnarfirði og víðar. Maðurinn er gerandi í einu þekktasta sakamáli sögunnar og morðið var óvenjulega kaldrifjað og hrottafullt, glæpurinn vandlega undirbúinn.“

Þannig byrjar yfirlýsing Ágústs Borgþórs Sverrissonar, blaðamanns DV, sem skrifaði grein um Gunnar Rúnar Sigurþórsson. Gunnar myrti Hannes Þór Helgason árið 2010 í Hafnarfirði. Gunnar Rúnar var dæmdur í Hæstarétti í sextán ára fangelsi. Geðlæknir greindi Gunnar með ástsýki, amor insanus, og var hann dæmdur ósakhæfur í héraðsdómi.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ásetningur Gunnars Rúnars hafi verið einbeittur þegar hann braust inn á heimilis Hannesar Þórs og stakk hann nítján sinnum með hníf. Í yfirheyrslum hjá lögreglu skömmu eftir morðið sagði Gunnar: „Ég elskaði Hildi. Hún átti að vera hjá mér. Hún átti ekki að vera með honum.“ Gunnar situr ekki lengur í fangelsi, en í dag er hann undir eftirliti Fangelsismálastofnunar.

Í frétt DV kemur fram að blaðamaður hitti á Gunnar Rúnar fyrir utan Vernd og falaðist eftir viðtali. Afþakkaði Gunnar Rúnar að ræða við blaðamann.  Guðmundur Ingi, formaður félags fanga, gagnrýndi DV og telur að miðillinn hafi verið ónærgætinn í umfjöllun sinni og of langt hafi verið gengið að fara á vinnustað Gunnars Rúnars og taka af honum myndir við störf fyrir Rauða krossinn. Þá er einnig tilgreint heimilisfang Gunnars Rúnars og hverjir búa á heimilinu og segir Guðmundur Ingi að fjölskyldur fanga geti ekki borið ábyrgð á gjörðum þeirra og eigi rétt á friðhelgi.

Í yfirlýsingu sinni segir Ágúst að gagnrýni á fréttaflutning DV sé í botnfalli Twitters og segir fjölskylda fórnarlambsins sé ekki sammála tilteknum stórbloggurum í fjölmiðlastétt. 

„Í furðulegri gagnrýni á þennan fréttaflutning, meðal annars í botnfalli Twitters og í yfirlýsingu frá því ágæta félagi Afstöðu, er látið eins og ég sé að brjóta á friðhelgi einstaklings og elta mann á röndum í tilgangsleysi. Það er í sjálfu sér fróðlegt að sjá einstaka fjölmiðlamann opinbera skilningsleysi sitt á fréttum og tilgangi þeirra. Tilgang fréttarinnar, sem mér virtist raunar augljós, hef ég nú þegar rakið. Og ég þarf víst varla að taka fram að fjölskylda fórnarlambsins í þessu máli er ekki sammála tilteknum stórbloggurum í fjölmiðlastétt.“

Þá segir Ágúst enn fremur að það sé makalaus firring fólgin í því að telja að upplýsingarnar í þessari frétt eigi ekki erindi við almenning og að það hafi verið almenningur sem hafi leitað til DV og kallað eftir því að blaðið kafaði ofan í málið.

„En friðhelgi einkalífsins? Er mönnum alvara? Lögheimili mannsins er í þjóðskrá. Allir sem eru með einkabanka hafa aðgang að þjóðskrá. Að segja frá bíl mannsins? Bílar eru ekki eitthvað sem fólk notar í einrúmi innan veggja heimilisins, þessi maður eins og aðrir ekur auðvitað á bíl sínum um borg og bý. Og að sjálfsögðu þarf ég ekki leyfi fyrir því að ávarpa mann úti á götu þegar hann stígur út úr bíl sínum. Afstaða lætur eins og ég hafi brotist inn á Litla Hraun og troðið mér inn í klefa hjá fanga. Og auðvitað hafa fjölmiðlar leyfi til að mynda þekkt fólk á almannafæri. Það er makalaus firring fólgin í því að telja að upplýsingarnar í þessari frétt eigi ekki erindi við almenning. Það var einmitt almenningur sem leitaði til okkar og kallaði eftir því að við köfuðum í málið.“

 

Nýjast