Lögregluklúður án ábyrgðar

Það er synd að sjá hvað við lærum lítið af þeim hörmungum sem heyrast úr undirheimum fíkniefnaviðskiptanna hér á landi - og það er augljóst, miðað við það sem á undan er gengið, að afglæpavæða verður þennan kima samfélagsins og bjóða fórnarlömbum hans raunhæfa heilbrigðisaðstoð.

Þetta er mat þeirra Jóns Kaldal, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins og Fréttatímans og Kristjóns Kormáks, ritstjóra DV sem mættu í Ritstjórana í gærkvöld, en tilefni umræðunnar var hrina dauðsfalla ungs fólks sem hefur glímt við fíknivanda. Það sem af er ári hafa fimm einstaklingar fallið í valinn vegna of stórs skammts af hörðu dópi.

Reykjavíkurslagur Dags og Eyþórs kemur einnig við sögu í þættinum, þar á meðal senan í Höfða í gær þar sem borgarstjóri rak boðflennuna Eyþór út úr húsi, en sessunautanrnir eru sammála um að Eyþór eigi á brattann að sækja og slagnum - og sennilega muni drottningin í steinhúsinu, Vigdís Hauksdóttir ræna hermaurinn miklu fylgi, en ekki taka neitt af andstæðingum hans.

Lögregluklúðrið verður og brotið til mergjar, en Jón og Kristjón fagna báðir breyttum verkreglum löggunnar sem starfar orðið í miklu opnara umhverfi en áður tíðkaðist, með fjölmiðlum en ekki á móti þeim, en jafn ánægðir og þeir félagarnir eru með það að löggan viðurkenni mistök sín opinberlega segja þeir það merkilegt að enginn eigi þar að bera ábyrgðina.

Loks er staðan á fjölmiðlamarkaði tekin fyrir, en líkurnar á því að staða einkarekinna miðla batni á næstunni er líkleg af þeirri einföldu ástæðu að enginn Jón á lengur stærsta einkarekna ljósvakamiðilunn, hvorki Jón Ólafs né Jón Ásgeir - og sú breyta geti nú skipt sköpum. Annars sé það athyglisvert, svo ekki sé meira sagt að, enginn menntamálaráðherra frá 1991 hafi gert nokkuð til að laga stöðu einkarekinna fjölmiða á kostnað ríkisrisans - og þar hafi í öllum tilvikum setið sjálfstæðismenn að völdum, nema einu sinni, vel að merkja, sem hafi verið í tíð Katrínar Jakobsdóttur sem ráðherra menntamála frá 2009 til 2013, en akkúrat þá hafi hlutur einkareknu miðlanna verið lagaður eitthvað að ráði; það hafi sumsé þurft vinstrimann til að bæta stöðu einkaframtaksins á fjölmiðlamarkaði á meðan hægrimennirnir aðhöfðust ekkert.

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00 og endursýndir í dag en einnig sjáanlegir á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.