Ættum að þýða meira úr pólsku

Meirihluti landsmanna les bækur og styður að bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. „Við lesum ansi mikið, það er stór meirihluti sem les reglulega og það er hátt í þrjár bækur á mánuði, eða 2,7. Konur að meðaltali 3,5 bækur á mánuði og karlar tvær. Almennt talið eru yfir 70 prósent sem les alla jafna“, segir Hrefna Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Miðstöðin lét á dögunum gera könnun um viðhorf landsmanna til m.a. bóklestrar, þýðinga, bókasafna og opinbers stuðnings við bókmenntir. Hrefna og Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda eru gestir Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í kvöld og ræða þar könnunina.

Niðurstöður könnunarinnar gefa sterkar vísbendingar um að lestur sé enn stór þáttur í lífi landsmanna og að viðhorf fólks sé jákvætt í garð bókmennta, lestrar og opinbers stuðnings við bókmenntir.

Þýddar bækur vinsælar

Samkvæmt könnuninni vill meirihluti Íslendinga fá nýjar erlendar bækur þýddar á íslensku. Langflestar þýðingar eru úr ensku. „Það er mikilvægt fyrir okkur að fá bækur og sögur frá öðrum þjóðum“, segir Bryndís.

Samkvæmt Hagstofunni eru innflytjendur 12,6 prósent íbúa á landinu og eru Pólverjar lang fjölmennasti hópur þeirra, eða tæplega 40 prósent. „Hvað eigum við margar þýðingar frá Póllandi? Hversu vel erum við að skilja Pólverja? Við megum gera miklu betur í þýðingum frá öðrum löndum“, segir Bryndís ennfremur og bætir við að þetta sé líka mikilvægt fyrir börnin okkar, sem gangi gjarnan í skóla með börnum hvaðanæva að úr heiminum.

Helstu niðurstöður

  • Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telur yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eða um 79%, mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, sem er hærra hlutfall en í sambærilegri könnun frá síðasta ári. Konur eru í meirihluta þeirra og fólk á aldrinum 18-24 ára.
  • Niðurstöður sýna að 72% svarenda hafa lesið eða hlustað á bók/bækur síðastliðna 30 daga að hluta eða í heild. Um 86% þeirra hafa lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, 31% lesið rafbækur og 35% hlustað á hljóðbækur. Karlar lesa að meðaltali 2 bækur á mánuði en konur 3,5.
  • Samkvæmt niðurstöðum fá um 56% svarenda hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum, um 40% í umfjöllun í fjölmiðlum, 30% í umfjöllun á samfélagsmiðlum, um 26% í bókabúðum, um 25% í auglýsingum og um 20% á bókasöfnum.

Heildarniðurstöður könnunarinnar er að finna á heimasíðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Sjónvarpsþátturinn 21 hefst kl. 21 á Hringbraut í kvöld.