Ætlar aftur í framboð

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks og nýráðinn þjálfari KR, hyggst sækjast eftir öðru af tveimur efstu sætum síns flokks í suðvesturkjördæmi, kraganum. Fyrir kosningarnar 2013 var hann í öðru sæti.  Eygló Harðardóttir skipaði efsta sæti listans.

Willum og Eygló börðust þá um fyrsta sætið og Eygló hafði betur eftir tvísýna baráttu. Willum er ekki viss um að hann stefni á fyrsta sæti. Hann hefur mikinn áhuga á að halda áfram á þingi.

En er þingmennska ekki full starf og hvernig fer þá saman að vera á þingi og þjálfa?

Willum segir þingmennsku vissulega vera fullt starf og hann reyni að láta þetta ganga upp þá þrjá mánuði sem hann starfar fyrir KR. Hann bendir á að nú sé hlé á þingfundum þar til um miðjan ágúst og þá hefjist stutt þing þar sem kosið verður í október.

Willum sagði sig úr stjórn Breiðabliks nánast á sama augnabliki og hann sagði já við KR um þjálfun meistaraflokks karla hjá félaginu.