Ægifagur íshellir fundinn í Hofsjökli

Sköpunarverkið er alltaf að í náttúru Íslands:

Ægifagur íshellir fundinn í Hofsjökli

Ljósmynd: Jónmundur Gunnar Guðmundsson
Ljósmynd: Jónmundur Gunnar Guðmundsson

Stór og ægifagur íshellir hefur fundist í suðurjaðri Hofsjökuls, en hann er líkast til allt að 200 metra langur og mikill geimur að innan að sögn þeirra sem hafa virt þetta nýjasta náttúrufyrirbrigði landsins fyrir sér.

Páll Gíslason hjá Fannbörg, sem rekið hefur starfsemi í Kerlingarfjöllum samfeelt frá 1964, segir við hringbraut.is að menn hafi fyrst fengið njósnir af íshellinum í desember, en frekari leiðangrar á nýju ári hafa fært mönnum sanninn um mikla fegurð hans og sérstöðu. Mjög líklega hafi lónið og hellirinn orðið til í umbrotum náttúrunnar á síðasta ára, en augljóslega hafi þarna mikið gengið á, að sögn Páls.

Allnokkurt lón hefur myndast fyrir framan munna hellisins, þar sem ísjakar lóna nú um stundir, en inn af lóninu er geil þar sem hægt er að komast þurrum fótum inn í hellinn. Þar blasir víðáttumikil hvelfingin við mönnum, en í miðju hennar er að finna gat upp úr jöklinum, þar sem snjór á auðvelt með að komast að, með þeim afleiðingum að myndarlegur snjóhóll stendur upp af miðju hellisgólfinu.

Vegna opsins inni í miðjum hellinum leikur ljósið veigamikið hlutverk í upplifun þeirra gesta sem virða fyrir sér þessa miklu náttúrusmíð, sem verður að öllum líkindum vinsæll viðkomustaður ferðalanga á næstu misserum, en Kerlingafjöll eru afar vinsæl á meðal íslenskra og erlendra fjallamanna, enda minna náttúruundrin á þeim slóðum á samspil elds og íss með ævintýralegu litskrúði sínu.

   

 

Nýjast