Aðkoma stjórnvalda ekki möguleg vegna ees

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, og Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent, eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þeir stöðu WOW air.

Svartasta sviðsmyndin er sú að flugfélagið fari í gjaldþrot, um 1.000 manns missi vinnuna hjá því og allt að 4.000 manns með afleiddum störfum. Jón Karl og Snorri telja auk þess að farþegum muni fækka til landsins ef WOW air fer í þrot.

Snorri telur að ef allt fari á versta veg sé það líklegast vegna þess að fluggjöld WOW air hafi verið of lág á meðan rekstrarkostnaður hafi sífellt farið hækkandi.

Um stöðuna í dag segir Jón Karl: „Samkvæmt upplýsingum sem koma frá honum sjálfum [Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air] er verið að ræða núna við lánadrottna enn einu sinni um að breyta skuldum í hlutafé. Þetta hefur svo sem heyrst áður og vonandi er þetta eitthvað í gangi. Ég bara segi aldrei annað en það, vonandi finnast lausnir á þessu. En þetta er gríðarlega stórt verkefni sem þarna er, því það kom fram í einhverjum fjölmiðlum í morgun að tapið gæti verið í einhverjum tölum sem maður hefur sjaldan séð, jafnvel tugir milljarða.“

Svokölluð Air Berlin leið hefur verið viðruð sem möguleiki fyrir WOW air. Þar kom þýska ríkið ekki til bjargar þrátt fyrir að einhverjir telji svo vera. „Þeir komu ekki til bjargar en þeir hins vegar stýrðu svolítið atburðarásinni þegar félagið hætti starfsemi. Þeir gerðu það þá með því að setja inn eitthvað fjármagn, sömdu við Lufthansa um að taka yfir farþega og ég þekki nú ekki nákvæmlega „díteilana“ um hvernig ríkið fékk peningana sína til baka, en það var að minnsta kosti skýrt hvernig þetta gerðist. Air Berlin bara hvarf, hætti að fljúga frá einum degi til annars og ég held að Lufthansa hafi gert þriggja mánaða samning um að leysa til sín þá farþega og flytja þá til síns heima og jafnvel til og frá gegn einhvers konar láni frá hinu opinbera. Menn þurfa að passa sig mjög á ríkisstyrkja láni í þessu sambandi,“ segir Jón Karl.

Snorri tekur undir þetta og segir um mögulega aðkomu stjórnvalda: „Ef það er einhver ríkisábyrgð á lánum þá er hún líklega túlkuð sem ríkisstyrkur og samkvæmt EES reglunum þá bara má það ekki, það eru engar undanþágur. En það er eitthvað mjög langt ferli og þarf að skoða mjög vel áður en eitthvað svoleiðis fer í gang.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í dag að aðkoma stjórnvalda væri ekki á dagskrá, þar sem það væri ekki réttlætanlegt af stjórnvöldum að nota skattfé til að bjarga áhætturekstri. „Þau geta það bara ekki held ég og átta sig alveg á því. Fordæmi og samkeppnisstaða gagnvart Icelandair og gagnvart öðrum atvinnuvegum o.s.frv. Það bara gengur ekki upp, þú ert að opna eitthvað pandórubox,“ segir Snorri.

Nánar er rætt við Jón Karl og Snorra í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.