Íslenskur almenningur ósnertur i verkföllunum

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, og Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri hópferðafyrirtækisins Teits Jónassonar, eru gestir Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þau verkföll í ferðaþjónustunni.

Bjarnheiður telur það ósanngjarnt að verkföllin beinist fyrst og fremst að ferðaþjónustunni og segir ýmsar ástæður fyrir þeirri skoðun sinni. „Fyrst má kannski nefna það að þetta er náttúrulega snilldar áætlun hjá verkalýðsfélögunum að láta aðgerðirnar bitna á ferðaþjónustufyrirtækjum og þar með ferðamönnum. Á meðan er almenningur á Íslandi nánast ósnertur af þessu og verður ekki mikið var við þetta. Það eru ferðamennirnir okkar sem súpa seyðið af þessum aðgerðum. En ég er hissa á þessu líka vegna þess að það var jú ferðaþjónustan sem fleytti okkur upp úr efnahagslegum öldudal eftirhrunsáranna og hefur stuðlað hér að hagsæld og velsæld og nánast útrýmt atvinnuleysi. Síðan í þriðja lagi þá er ég hissa á þessu vegna þess að ferðaþjónustan er núna nánast með bakið upp að vegg, það hefur orðið samdráttur, fyrirtæki hafa verið að hagræða og við sjáum í fyrsta skipti fækkun ferðamanna á þessu ári frá því árið 2010 ef ég man rétt. Þannig að það er ljóst að það er ekki mikið að sækja til ferðaþjónustunnar akkúrat núna.“

Bjarnheiður telur um hernaðaráætlun vera að ræða hjá verkalýðsfélögunum, að beina verkfallsaðgerðum að ferðaþjónustunni svo almenningur á Íslandi finni sem minnst fyrir. „Ég er bara komin að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið mjög góð áætlun hvað það varðar en hins vegar ekki eins góð upp á það að sækja miklar launahækkanir, því miður.“

Haraldur segir launahlutfallið í ferðaþjónustunni hafa hækkað á síðustu árum. „Þróunin hefur verið sú að þetta er búin að vera gríðarleg aukning frá eftirhrunsárunum. 2012 til 2016 hefur verið mikil aukning og kannski of mikil aukning sem hefur valdið því að það hefur vantað gott starfsfólk, sem hefur líka valdið því að það hefur verið launaskrið. Þ.e.a.s., fæstir eru að borga kannski eftir töxtum í ferðaþjónustunni. Þetta eru svona lítil og meðalstór fyrirtæki, mjög mikið, og þar vinna menn mjög þétt saman og í rauninni eru laun alltaf svona samkomulagsatriði. Þetta er búið að breytast þannig að launin eru bara ágæt, allavega það sem við þekkjum til í okkar geira. Það svona virðist vera að þessi barátta snúist um eitthvað allt annað en laun.“

Nánar er rætt við Bjarnheiði og Harald í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.