Aðeins þrír flokkar vilja ræða umbreytingar

Aðeins þrír flokkar vilja ræða umbreytingar

 

Á dögunum notaði formaður Samtaka atvinnulífsins lýsingarorðið „galin“ um þá stefnu sem heldur uppi  háum vöxtum og háu gengi. Gagnrýni formannsins beinist að lykilatriði við stjórn efnahagsmála landsins. En nú þegar tæpar þrjár vikur eru til kosninga hafa aðeins þrír flokkar opnað á umræðu sem leitt gæti til umbreytinga og meiri stöðugleika á þessu sviði.

Þetta eru Viðreisn, Björt framtíð og Píratar. Stjórnarflokkarnir og VG boða óbreytt peningakerfi. Samfylkingin sem áður vildi taka upp evru hefur kúvent stefnu sinni og styður nú krónuhagkerfið óbreytt með þeirri skýringu að Evrópusambandsaðild sé ekki á dagskrá.   

Allar getsakir um stjórnarmyndun eru erfiðar. En það væri rökrétt að hún snerist fyrst og fremst um þetta efni. Önnur viðfangsefni á sviði efnahagsmála munu þróast í mjög ríkum mæli eftir því hvort menn þora að ráðast í breytingar eða hyggjast hjakka áfram í sama fari.  

Samfylkingin hjálpaði ríkisstjórninni sem kunnugt er að festa óbreytta landbúnaðarstefnu í áratug. Skýringin á því gæti verið sú að hún hafi verið að opna leið til stjórnarsamvinnu um óbreytt ástand í gjaldmiðils- og peningamálum. Önnur hugsanleg skýring er pólitískt meðvitundarleysi.

Flokkarnir þrír sem tala fyrir breytingum eiga litla möguleika á að mynda stjórn saman einir og sér. Margt bendir til  að VG og Samfylkingin kjósi að standa saman annað hvort í ríkisstjórn eða utan að kosningum loknum. Þannig gætu þeir tveir flokkar  ráðið mestu um það hvers kyns stjórn yrði mynduð. Þeir hefðu þá val um óbreytt ástand með stjórnarflokkunum eða umbreytingar með Viðreisn, Pírötum og Bjartri framtíð.

Tvær síðustu ríkisstjórnir hafa haldið þannig á ríkisfjármálum að þau eru nú í nokkuð góðu horfi. Um leið hafa ytri aðstæður verið einstaklega hagstæðar fyrir þjóðarbúskapinn. Það hefur svo auðveldað stjórn á krónunni að hún hefur verið í höftum í átta ár.

Þrátt fyrir þetta erum við í miðju ofrisi krónunnar. Jafnframt skekkja háir vextir samkeppnisstöðu fyrirtækja og íþyngja heimilunum.  Þó að tvær síðustu ríkisstjórnir hafi verið mistækar um sumt skrifast þetta ekki á reikning þeirra. Klípan er sú að það er ekki á færi bestu ríkisstjórna að koma í veg fyrir taktfast ofris og hrap krónunnar. Jafnvel við hagfelldustu skilyrði eins og við búum nú við hefur það ekki tekist.

Talsmenn útflutningsfyrirtækjanna telja ástandið galið þegar krónan ofrís. Þegar hún fellur telja talsmenn launafólks að stefnan sé galin.

Kosningarnar fara fram við ákjósanleg skilyrði fyrir stjórnarflokkana að því leyti að krónusveiflan gengur gegn fyrirtækjunum en ekki launafólki eins og sakir standa. En það ofris krónunnar sem forystumenn atvinnulífsins lýsa þýðir alltaf fall. Það er bara spurning um tíma.

Framleiðni, sem  er undirstaða bættra kjara, hefur staðið í stað um langan tíma. Þar stöndum við að baki grannþjóðunum.  Enginn vöxtur er í öðrum útflutningsgreinum en ferðaþjónustu. Þetta eru óþægileg  hættumerki. Til þess að ná árangri í þessu efni þarf umbreytingar. En um þær vilja ríkisstjórnarflokkarnir ekki tala og heldur ekki tveir stærstu þingflokkar stjórnarandstöðunnar.

Við þurfum að komast út úr því kerfi þar sem talsmenn launafólks og atvinnufyrirtækja flytja til skiptis ræðuna um að stefnan í gjaldmiðils- og vaxtamálum sé galin. Með þeim öfluga gjaldeyrisvarasjóði sem myndast hefur er komið tækifæri til umbreytinga. Markmiðið er að ná því jafnvægi að talsmenn launafólks og atvinnufyrirtækja geti til lengri tíma verið sáttir samtímis en þurfi ekki að skiptast á um að vera í því hugarástandi.

Þó að þrír flokkar hafi lýst vilja til að ræða umbreytingar hefur Viðreisn ein kynnt þekkta aðferð við að koma á nýrri skipan sem gæti skipt sköpum. Það er hvorki einföld né auðveld lausn. En þeir sem halda því fram  að jafnvægi náist af sjálfu sér einn góðan veðurdag eru beinlínis að blekkja, að minnsta kosti sjálfa sig ef ekki aðra.

Núverandi stjórnarflokkar lofuðu fyrir síðustu kosningar að krónan yrði stöðug og samkeppnisfær með lágum vöxtum. Það átti að gerast sjálfkrafa ef  þeir kæmust að ríkisstjórnarborðinu. Þrátt fyrir velhæfan fjármálaráðherra, höft og bestu möguleg ytri skilyrði er ástandið í þessum efnum þó enn galið að mati forystumanna atvinnulífsins. Ástæðan er viljaleysi til umbreytinga.

 

 

 

Nýjast