Að dilla fólki eða dæma það úr leik

Nú er það auðvitað svo að sá sem hér heldur á penna er enginn sérfræðingur í skólamálum en hann má þó eiga það að hafa komið sex börnum sínum á legg og hjálpað þeim í gegnum íslenska skólakerfið, oft og tíðum reitandi hár sitt, skal hér viðurkennt, enda lélegur í stærðfræði og slappur í sumum tungumálum og má því heita að föðurnefnan hafi fremur afvegaleitt þar börnin sín en beint þeim rétta vegu.

Eftir næstum því þrjátíu ára langa aukavinnu við heimanámshjálp er niðurstaða mín sem leikmanns í skólamálum einhvern veginn á þessa leið: Skólinn er miklu einsleitari en börnin mín. Og hann er líka langtum dómharðari en börnin mín. Þau eru nefnilega af öllu tagi; listhneigð mörg hver, íþróttasinnuð sum hver og enn önnur pólitísk - og svo eru þau ýmist meira gefin fyrir hugvitið eða verkvitið, þessar elskur.

Og skólinn hefur hentað mörgum þeirra, öðrum ekki. Hann hefur verðlaunað sum þeirra, en refsað öðrum. Hann hefur fyllt einhver þeirra stolti, en kvíða í tilviki annarra. Og samræmd próf, þessi síðari tíma alræmdu, hafa hentað sumum þeirra feikivel, öðrum engan veginn. Úrskurður minn er því sá að skólaskyldan sé  sniðin að getu svo til einnar manngerðar. Og skólans er valdið; að dilla fólki eða dæma úr leik.