Á móti frekari gjaldtöku á ferðamenn

Bjarnheiður Hallsdóttir, nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að erlendir ferðamenn greiði nóg til samfélagsins nú þegar og vill ekki frekari gjaldtöku. Hún er mótfallin því að ferðamenn greiði inngang að einstökum náttúruperlum.

 

Bjarnheiður sagði á Morgunvaktinni á Rás eitt að sér fyndist ferðamenn vera að leggja nóg að mörkum nú þegar. „Þeir eru skattlagðir gríðarlega mikið. Þeir greiða nú þegar gjald mjög víða og þeir eru að skila gríðarlegum tekjum til ríkis og sveitarfélaga. Árið 2015 voru t.d. beinar nettótekjur ríkis og sveitarfélaga um 65 milljarðar króna, þ.e.  þegar búið er að draga frá allan kostnað. En þetta er umdeilt. Það eru sumir sem vilja skattleggja eða rukka ferðamanninn mun meira, en þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða heildrænt, hvaða gjaldtaka er í gangi og hvað er ferðamaðurinn að skila nú þegar og er ástæða til að fara í frekari gjaldtöku\".

Telur þú óþarft að koma með náttúrupassa eða frekari gjöld, hvort sem það er varðandi komur eða gistingu?

„Ég tel það persónulega vera, já. En þetta er eitthvað sem þarf að nást samkomulag um í sátt og verður væntanlega klárað á næstunni\". 
En hvað með greiðslur inn á helstu ferðamannastaði eða náttúruperlur?

„Við erum ekki hrifin af því vegna þess að Íslandsferðin byggir á náttúruupplifun fyrst og fremst og við teljum að slík gjaldtaka myndi skerða þá ímynd sem við viljum hafa af landinu ef að fólk þarf sífellt að taka upp veskið við hvern foss eða læk. Við höfum ekki verið hrifin af þeirri hugmynd\".