Á ekki afturkvæmt í ráðherrastól

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Logi Einarsson og Gunnar Bragi Sveinsson eru gestir í 21 í kvöld:

Á ekki afturkvæmt í ráðherrastól

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, eru gestir Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þau ákvörðun Sigríðar Á. Andersen um að stíga til hliðar úr embætti dómsmálaráðherra í kjölfar úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu á mánudaginn um að skipan á fjórum dómurum í Landsrétt hafi brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Þorgerður Katrín segir um afsögn að ræða. „Í mínum huga er þetta afsögn. Hún er kannski að taka svona til orða, „stíga til hliðar,“ eðlilega af því að hún er stjórnmálamaður með metnað eins og við öll. Hún ber þá von eflaust í brjósti að geta komið til baka og vill halda því opnu með þessu orðalagi, en formreglurnar segja að þetta sé raunverulega afsögn. Það þarf sjálfstæða ákvörðun til að hún komi inn aftur.“

Logi tekur í sama streng og finnst hæpið að hún eigi afturkvæmt í sama ráðherrastól í núverandi stjórnarsamstarfi. Hann gagnrýnir hvernig Sigríður fór að því að segja af sér. „Þetta er auðvitað skýr afsögn. Það sem vekur athygli við þetta er að hún velur að tala svona um þetta, það er eingöngu gert fyrir hana sjálfa og kannski einhvern arm í Sjálfstæðisflokknum sem hefur stutt hana. Þetta er hins vegar bara sprengja inn til Vinstri grænna. Þau geta ekki verið sátt við þetta orðalag vegna þess að þá vofir ennþá yfir sá möguleiki að þegar það er búið að klára þetta mál komi hún bara aftur og það hef ég enga trú á að hugnist Vinstri grænum.“

Gunnar Bragi telur afsögn Sigríðar ekki af fúsum og frjálsum vilja. „Ég held að það sé alveg augljóst að þetta var einhvers konar skilyrði frá Vinstri grænum að hún myndi víkja enda segir Sigríður sjálf í öllum sínum yfirlýsingum að þetta sé sinn pólitíski veruleiki, að hún sé að gera þetta út af pólitík. Ekki í rauninni út af niðurstöðu dómsins, heldur að sé það pólitískt andrúmsloft og hennar persóna sé fyrir og eitthvað slíkt. Þannig að ég tek undir með kollegum mínum hér að þetta er ekki af fúsum og frjálsum vilja sem hún er að stíga til hliðar. Hvort hún kemur aftur er svona spurningamerki. Það er ljóst að hvorki Katrín né Sigurður Ingi hafa lýst yfir stuðningi við Sigríði, þau hafa fagnað þessari ákvörðun hennar. Sigurður Ingi reyndar skilyrðir endurkomuna við það að yfirréttur komist að annarri niðurstöðu en þessari, þá eigi hún kannski afturkvæmt. Þannig að þetta er augljóslega bara pólitík.“

Nánar er rætt við Þorgerði Katrínu, Loga og Gunnar Braga í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast