80% í esb en með 0% áhrif

EES-samningurinn, sem er aldarfjórðungs gamall, þýddi í raun, að Ísland gekk 70-80% í ESB. Við bættist svo aðild að Schengen-samkomulaginu, sem tryggir vegabréfalaus ferðalög innan ESB.

Öllum er ljóst, að EES-samningurinn hefur reynzt okkur feykilega gagnlegur, enda eru 85-90% okkar utanlandsviðskipta við Evrópu, og, þökk sé EES-samningnum, þá höfum við frjálsan og að mestu tollalausan aðgang að 31 evrópskum markaði, ESB plús EFTA, á sama hátt og við getum keypt afurðir þessara landa frjálslega, ferðast um þau, sezt þar að og hafið þar nám eða störf að vild.

Ef langtímasamningar eru gerðir, þarf auðvitað að vaka yfir þeim, því forsendur og skilyrði breytast stöðugt. Það er því alvarleg vanræksla stjórnvalda hér, að EES-samningurinn hafi ekki verið endurskoðaður og um hann endursamið, eftir þörfum, til að landsmönnum væru jafnan tryggð beztu kjör.

Við erum nú komin að krossgötum í þessu máli.

Bjarna Benediktsson, sem reyndar er ekki skýrasti maður landsins um málefni ESB, þó að hann sé með góða afrekaskrá í ýmsu öðru, fáraðist mikið yfir „boðvaldi, úrslitavaldi og sektarákvörðunum“ ESB, á grundvelli EES samningsins, á Alþingi nýlega.

Dæmi um slíkt nefndi hann þó engin.

Sannleikurinn er líka sá, að það regluverk, sem frá ESB kemur, gengur aðallega út á neytendavernd, dýra- og umhverfisvernd, heilsuvernd, öryggi hvers konar heima fyrir, á ferðalögum og á vinnustað, réttindi þjóðríkja og almennings gagnvart alþjóðlegum stórfyrirtækjum, svo sem flugfélögum, símafélögum og öðrum slíkum, eftirlit með því, að risafyrirtækin borgi sína skatta o.s.frv.

Öllum ætti því að vera ljóst, að regluverk ESB sé af hinu góða fyrir almenning á Íslandi og annars staðar, þar sem það gildir.

Ýmsir spámenn hér, þar á meðal utanríkisráðherra, virðast halda, að EFTA yrði miklu sterkara og fengi betri samninga við ESB, ef af Brexit verður og Bretar gengju í EFTA. Hefur sá góði maður hvatt til þess og ráðlagt Bretum, án þess að vitað sé, að Bretar hafi leitað eftir leiðsögn í málinu héðan frá Fróni.

Þessi hugleiðing utanríkisráðherra, sem sumir kunna að halda, að sé á háu plani, er fyrir undirrituðum aldeilis óraunsæ, því, af hverju ætti ESB að veita Bretum, með eða án 4ra smáþjóða EFTA, jafngóðan samning og Bretar hafa sem fullgildur ESB meðlimur og aðrir ESB meðlimir hafa!?

Varðandi gildi Bretlands fyrir okkar utanlandsviðskipti, skal á það bent, að meðan að heildarutanríkisviðskipti okkar við Evrópu er 85-90% af okkar utanlandsviðskiptum, eru hlutur Bretlandsviðskiptanna aðeins rúm 10%. Það er því lítt skiljanlegt, hvílígt ofurkapp utanríkisráðherra leggur á Bretland og bresk samskipti í sinni framtíðarsýn; geta 10% haft meira vægi í einhverju máli en 75-80%!?

Það er felst því  nokkur dómgreindarfátækt í hugleiðingunni um nýjan og  bættan – nútímalegan - EES-samning, í gegnum EFTA, með eða án Breta; beztu samningarnir við ESB verða að sjálfsögðu aðeins tryggðir með fullri ESB-aðild!

Með fullri aðild myndum við tryggja okkur beztu mögulegu viðskiptakjör og önnur kjör og réttindi, og ekki nóg með það, heldur myndum við væntanlega fá 6 þingmenn inn á Evrópuþingið, einn kommissar, eins og allar hinar ESB þjóðirnar – engin hefur fleiri en einn -, og gætum við þá loksins látið að okkur kveða; komið okkar málum á framfæri á réttan hátt, á réttum stöðum og haft áhrif!

Hér skal á það sérstaklega minnt, að engin meiriháttar ákvörðun er tekin innan ESB, nema að allar aðildarþjóðirnar – nú 28 – samþykki. Hver þjóð hefur því neitunarvald, og er jafnmikið lýðræði, í samstarfi sjálfstæðra þjóða, óþekkt í sögunni.

ESB hefur síðustu ár gert stórfellda fríverzlunarsamninga; við Suður-Kóreu, Japan og Kanada, þjóðir sem hafa um 210 milljónir efnaðra neytenda, og nær fríverzlunarsvæði ESB þannig til 715 milljóna manna.

EES samningurinn veitir okkur  þó ekki aðgang að fríverzlun við þessar 3 mikilvægu þjóðir, sem full ESB aðild myndi auðvitað veita.

Þð breytir litlu fyrir ESB og risavaxið fríverzlunarsvæði þess, hvort að af Brexit verður, eða ekki, með 65 milljónum þegna, en Bretar verða - hvort sem er - að leita inn á ESB meginlandsmarkaðinn, því að þeir hafa  engan annað markað við húsdyrnar.

Fyrri nýlendur, sem Bretar vilja nú vingast við, hafa hvorki góðar minningar um þá né þörf fyrir þá.

Brexti fylleríið mun því sennilega enda með harkalegum timburmönnum.

„God save the Queen“.

Það er mál til komið, að Ísland taki ESB skrefið til fulls, fari úr 80% í 100% ESB-aðild, og fái um leið 100% möguleika á að láta í sér heyra og hafa áhrif!