66 einstaklingar í heimasóttkví en engin ný tilfelli

Samtals eru 66 einstaklingar í heimasóttkví á landinu vegna mislinga. Staðfest tilfelli eru ennþá fimm og 1 vafatilfelli. Ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga á síðustu dögum og ef ekki greinist nýtt tilfelli fyrir 26. mars hefur mislingafaraldurinn að öllum líkindum stöðvast.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá sóttvarnalækni.

Hvert mislingasmit hefur áhrif á marga aðila í nánasta umhverfi og því eru svo margir í heimasóttkví um þessar mundir. Í heimasóttkví felst að þeir einstaklingar sem hafa komist í tæri við sýktan einstakling skulu halda sig heima frá degi 6 eftir að þeir komust í tæri við hann og fram að 21 degi.

Á fundi sóttvarnalæknis í morgun með umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga, en nokkrir einstaklingar hafa að lokinni bólusetningu greinst með væg einkenni mislinga sem orsakast af verkun bólusetningarinnar. Ef ekki greinist nýtt tilfelli mislinga á landinu fyrir 26. mars eru yfirgnæfandi líkur á að mislingafaraldurinn hafi stöðvast.