54 tillögur í borgarstjórn í dag

Ný stjórn borgarinnar byrjar í dag:

54 tillögur í borgarstjórn í dag

Alls verða 54 tillögur bornar fram á fyrsta borgarstjórnarfundi nýkjörinna borgarfulltrúa í Ráðhúsinu í dag, en þeir eru nú 23 að tölu eftir að hafa verið fjölgað um átta, voru áður 15.

Flestar tillögur leggur fram fulltrúi Sósíalistaflokksins, eða sjö tillögur. Þær fjalla meðal annars um að leggja niður aukaþóknun fyrir nefndarstörf fulltrúa á vinnutíma þeirra, stofnun ólíkra félaga, það eru félag strætófarþega, félag skjólstæðinga velferðarsviðs og félag leigjenda hjá Félagsbústöðum.

Þá gerir borgarfulltrúi Flokks fólksins tillögu um rekstrarúttekt á Félagsbústöðum og borgarfulltrúi Miðflokksins um niðurfellingu byggingarréttargjalds. Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram tillögu um aðgerðir í húsnæðismálum, þar sem lagt er til að gert verði ráð fyrir sex þúsund íbúðum á Örfirisey, BSÍ reitnum, Keldum og Úlfarsársdal.

Fundurinn hefst klukkan tvö í dag. Auk kosningar borgarstjóra fer fram kosning forseta borgarstjórnar. Þá verður kosið í ýmis ráð og stjórnir á vegum borgarinnar.

Nýjast