5 stærstu í útgerð: 27 milljarða gróði

Fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, sem hafa til ráðstöfunar rösklega þriðjung kvótans, skiluðu nærri 27 milljörðum króna í hagnað á síðasta ári, en fyrirtækin hafa nú öll skilað inn afgkomutölkum sínum fyrir árið 2014.

Að því er fram kemur í samantekt DV um málið í dag munar hér mestu um hagnað Samherja hf sem skilaði 11 milljarða króna gróða á síðasta ári, en hin fyrirtækin sem eru á topplistanum eru HB Grandi, Ísfélag Vestmannaeyja, Síldarvinnslan og Vinnslustöðin í Eyjum. 

Bent er á það í úttekt blaðsins að þessi stóru sjávarútvegsfyrirtæki séu þó ekki einu sinni hálfdrættingar á við viðskiptabankana hér á landi, en gróðinn til sjós sé þar aðeins þriðjungur á við landið.

Fyrir utan Samherja, hagnaðist HB Grandi um 5,5 milljarða í fyrra, Ísfélagið um ríflega 3 milljarða, Síldarvinnslan um 6 milljarða og Vinnslustöðin rekur hér lestina með 1,1 milljarðs hagnað á síðasta ári.

Af þessum sjávarútvegsrisum hefur HB Grandi mestan hluta kvótans til úthlutunar, eða 12,2%, Samherji með 6,6%, Síldarvinnslan 5,9%, Vinnslustöðin 4,7% og loks Ísfélagið, einnig með 4,7% hlutdeild.