43 prósent tungumála í útrýmingarhættu

Alþjóðadagur móðurmálsins er í dag, 21. febrúar. Alls eru 6500 tungumál töluð í heiminum og á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu Þjóðanna kemur fram að 43 prósent þeirra séu í útrýmingarhættu. Þar segir að á tveggja vikna fresti deyi tungumál út og með því menningarleg og vitsmunaleg arfleifð.

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands og starfsmaður Veraldar – Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, telur rétt að hafa áhyggjur af þessari útrýmingarhættu tungumála: „Já það held ég. Ég þekki þetta aðallega frá rómönsku Ameríku, þar er auðvitað mikil umræða um tungumál sem eru í útrýmingarhættu. Þar eru þetta frumbyggjamál indjána, indjánasamfélaga sem í 500 ár hafa reynt að berjast fyrir því að tala sitt eigið tungumál, sums staðar að fá það viðurkennt sem opinbert mál í landinu. Bólivía hefur gengið einna lengst í því að viðurkenna mjög mörg indjánamál sem opinber mál.“

Hólmfríður er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.

„Það hafa kannski orðið eftir fjórir talendur einhvers tungumáls og þeir eru allir orðnir 77 [ára]. Um leið og það fólk deyr þá deyr út tungumálið. Sums staðar er verið að reyna að setja fé í það að málvísindamenn vinni að rannsóknum, taka upp á segulbönd, skrásetja málin, blæbrigði þeirra og hvað þetta tungumál nær utan um. Það er svo sem ekki beint efnahagslegt tap í að þetta hverfi en það er menningarlegt hrun ef að eftir verða 1000 tungumál og við týnum 5000,“ bætir Hólmfríður við.

Hefur ekki áhyggjur af stöðu íslenskunnar

Um íslensku og aukna blöndun ensku við málið, sér í lagi hjá yngri kynslóðum, segir Hólmfríður: „Það er bæði kostur og galli í því. Þau fylgjast hratt með og þurfa ekki að fara í gegnum orðabækur eða sér eldri til að leita skýringa á ýmsum hlutum og hafa á takteinum ýmislegt sem nýtist þeim. En á sama tíma er þetta dapurlegt ef það verður til þess að íslenskan glatar mikilvægi sínu. Ég hef svo sem engar áhyggjur af því í náinni framtíð af því að við erum að fjárfesta mjög miklu í öllu skólakerfinu. Börn byrja í leikskóla sem fer alla jafna fram á íslensku. Í grunnskóla og menntaskóla, kennslutungumálið í flestum þessum stofnunum er íslenska.“

Nánar er rætt við Hólmfríði í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.