28 PRÓSENTA LAUNAHÆKKUN BÆJARSTJÓRA

Meirihlutinn í Hafnarfirði gagnrýndur fyrir launahækkun yfirmanns:

28 PRÓSENTA LAUNAHÆKKUN BÆJARSTJÓRA

Haraldur L. Haraldsson
Haraldur L. Haraldsson

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði fékk launahækkun upp á tæplega fimm milljónir króna þegar hann tók við stöðu bæjarstjóra fyrir rúmlega ári. Auk launahækkunarinnar hefur bílastyrkur bæjarstjórans hækkað um tæplega 90% á undanförnum mánuðum. 

Þetta kom fram kvöldfréttum Stöðvar 2 um helgina. 

Haraldur var ráðinn í stöðu bæjarstjóra Hafnarfjarðar í júlí 2014 og voru laun bæjarstjóra hækkuð í kjölfarið. Minnihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar óskaði nýverið eftir því að fá yfirlit yfir launagreiðslur til Haraldar, en í ljós kom að hækkunin nemur um fimm milljónum króna á ári eða tæplega 28%. 

Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að launahækkun Haraldar væri meiri en margir starfsmenn bæjarins hafi í árslaun fyrir fullt starf. Mikill niðurskurður hefur átt sér stað í rekstri bæjarins og hefur til að mynda tólf lykilstarfsmönnum verið sagt upp í hagræðingarskyni. Flestir þeirra eru á sextugs- og sjötugsaldri og segir Gunnar Axel að vinnubrögð bæjaryfirvalda séu sorgleg og einkennist af hroka. 

Gunnar vekur enn fremur athygli á ríflegri hækkun á bílastyrk bæjarstjórans, en hann hefur á undanförnum mánuðum hækkað um tæplega 90%. Haraldur býr í Garðabæ og því ljóst að leiðin til vinnu er ekki löng. 

Nýjast