2012: björn valur benti á keisarans nekt

Menn eru kannski sjaldnast spámenn í eigin föðurlandi, en engu að síður er athyglisvert að lesa margra ára grein Björns Vals Gíslasonar, fyrrverandi þingmanns Vinstri grænna um átök Seðlabankans og Samherja, en þar spáir hann lyktum málsins.

Greinina skrifar Björn Valur í árslok 2012, rösku hálfu ári eftir fræga húsleit bankans á kontórum sjávarútvegsfyrirtækisins heima og erlendis, eftir að hann hafði kynnt sér ásakanir Seðlabankans á hendur Samherja fyrir meint gjaldeyrissvik, sem reyndust svo ekki á rökum reist, en lesningin er þessi:  

\"Níu mánuðum eftir eina stærstu húsleit sem gerð hefur verið á Íslandi er enn á huldu um hvað málið snýst, hver glæpurinn kann að vera. Í fyrstu var talað um að Samherji væri að svindla á útflutningi á nokkur hundruð tonnum af karfa með því að selja hann á lægra verði en aðrir úr landi og taka virðisaukann út erlendis, jafnvel í gegnum eigin fyrirtæki. Samkvæmt fréttinni mætti ætla að Seðlabankinn hafi fyrirtækið einnig grunað um að svindla á útflutningi á bleikju. Ég tók mig til sl vor og kafaði aðeins ofan í þetta mál, spurði spurninga, leitaði mér upplýsinga og nýtti mér þekkingu mína. Niðurstaða mín var sú í stuttu máli að fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem Samherji er stendur ekki í því að svindla á nokkrum tonnum af karfa eða bleikjutittum. Það er of mikið í húfi til að leggja fyrirtækið allt undir fyrir svo lítið. Stjórnendur fyrirtækisins eru einfaldlega ekki svo klikkaðir. Það þarf líka of margra starfsmenn með einbeittann brotavilja þvert á landamæri til að þannig svindl sé gerlegt. Ég komst að því að það væri tvennt í stöðunni sem gæti skýrt þetta mál. Annarsvegar að Seðlabankinn hafi beinlínis rangt fyrir sér og hefði ekkert mál í höndunum og hinsvegar að málið snérist um allt annað en útflutning á fiski. Ég veit ekki frekar en aðrir hvort er. (Svo getur líka vel verið að ég hafi rangt fyrir mér.)\"

Sem var nú ekki raunin.