1200 blaðsíður af persónuupplýsingum frá tinder

„Á átta ára tímabili var búið að safna um hana ótrúlega umfangsmiklum upplýsingum. Mig minnir að hún hafi fengið 1200 blaðsíður þegar hún prentaði þetta allt út. 1200 blaðsíður af upplýsingum, viðkvæmum persónuupplýsingum um kynlíf og kynhegðan, bæði hennar sjálfrar og annarra sem hún hafði tengst á þessum miðli,“ segir Alma Tryggvadóttir, persónuverndarfulltrúi Landsbankans, um konu sem óskaði eftir og fékk í hendurnar persónuupplýsingar sínar frá stefnumótasmáforritinu Tinder.

Alma, sem var áður lögfræðingur hjá Persónuvernd, var gestur Lindu Blöndal í 21 á miðvikudagskvöld og ræddi þar ný og strangari persónuverndarlög.

Um Tinder málið segir Alma einnig: „Hún fékk líka aðgang að upplýsingum frá Facebook og öllu sem hún hafði líkað við þar. Það hafði borist Tinder og var búið að færast yfir útaf samstarfi þarna á milli. Þannig að hún fékk rosalega mikið af upplýsingum og ég held að við áttum okkur ekki á því hvað þetta er gríðarlega mikið magn sem að við viljug og vitandi gefum frá okkur og birtum á samfélagsmiðlum.“

Sem dæmi um hvað við höfum gefið mikið magn af persónuupplýsingum frá okkur á síðustu árum nefnir hún Facebook: „Þeir sem byrjuðu á Facebook árið 2007, það eru komin mörg ár síðan, og ef við hugsum um hvað við gerum á hverjum degi og margföldum það með 365 og margföldum það með mörgum árum, þetta er ótrúlegt magn.“

Viðtalið við Ölmu í heild sinni er að finna hér: