Óvænta umsátrið um prófarkalesarann

Kvikmyndaleikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson í Mannamáli:

Óvænta umsátrið um prófarkalesarann

Það vantar ekki bransasögurnar í samtal þeirra Friðriks Þórs Friðrikssonar og Sigmundar Ernis í Mannamáli vikunnar, svo sem þær sem gerðust á bak við tjöldin við upptökur Skyttnanna 1986 þegar 11 lögregluklæddir menn sáust eftir endilöngum barnum á Duus í Grjótaþorpi - og allir með í glasi..

Málið var þetta; Friðrik Þór hafði fengið vini sína í fótboltafélaginu Árvakri til að leika löggurnar í einni frægustu senu myndarinnar þegar yfirvald borgarinnar umkringir skotglaða hvalskutlarana á horni Vesturgötu og Garðastrætis, en eitthvað teygðist á tökum inn í nóttina, enda þurfti að margendurtaka vopnaviðskiptin til að ná atriðinu almennilega á filmu. Eitthvað leiddist áhugaleikurunum seinagangurinn, svo þeir skelltu sér í einu hléinu á Duus-bar, íklæddir löggubúningunum og fengu sér almennilega neðan í því, eiganda barsins til nokkurrar furðu, enda laumaði hann sér í símann og hringdi á lögreglustöðina á Hverfisgötu og tilkynnti vaktinni að fyrir framan hann sætu 11 lögreglumenn að þambi, hvort það gæti talist eðlilegt?

Önnur saga úr sömu upptöku er ekki síður súrrealísk, en aflögð raftækjabúð á umræddu götuhorni varð ítrekað fyrir skotum úr næsta húsi alla upptökunóttina - og hafði kvikmyndagerðarfólkið fengið það ítrekað staðfest að húsið at arna væri mannlaust. Því var skotum látið rigna yfir framhlið hússins alla nóttina. Þegar birta tók um morguninn sást hins vegar þegar skjálfandi fingur rifuðu rimlagardínurnar á einum framglugga hússins og birtist sem snöggvast stjarft andlit konu sem þar reyndist hafa verið innandyra allan tíma. Og þegar tökuliðið náði loksins að lina frosið andlit hennar reyndist þar vera kominn prófarkalesari af Morgunblaðinu sem hafði skotist yfir í þetta næsta hús við ritstjórnina til að leggja sig eftir erfiða vakt. Og hún kvaðst nátturlega ekkert hafa sofið alla nóttina, heldur kuðlað sig saman úti í horni, lömuð af hræðslu í miðri skotlínunni.

Mannamál er frumsýnt öll fimmtudagskvöld klukkan 20:30 og endursýnt í dag, en er einnig aðgengilegt á vefnum hrringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

Nýjast